Klifrað var á grjótglímusvæði við rætur Akrafjalls um helgina. Lítið hefur verið klifrað á svæðinu og voru margar nýjar leiðir klifraðar, þar á meðal Besta leiðin 6c, sem þykir vera mjög skemmtileg. Nýju leiðirnar hafa þegar verið settar inn á Klifur.is.
Nokkuð var um mosa á óklifruðum leiðum og var þess vegna gott að hafa með sér góðan vírbursta til að hreinsa hann í burtu.
Klifursvæðið var auðvelt að finna þar sem það er á fyrstu klettunum sem komið er að þegar ekið er upp að fjallinu. Eftir að hafa klifrað í nokkurn tíma ákvað hópurinn að ganga aðeins um svæðið og athuga hvort meira klifur væri á svæðinu. Þegar horft er yfir svæðið sér maður að þarna er heill hellingur af klettum en þó fannst ekki mikið af klifurleiðum í þessum göngutúr sem var frekar svekkjandi.
Enginn af gestunum höfðu áður klifrað á klifursvæðinu og voru allir ánægðir með daginn og ánægðir með svæðið þó að ekki hafi fundist mikið klifur ofar í brekkunum. Ekki er þó öll von úti því göngutúrinn náði engan veginn að klára allt svæðið og er alveg óhætt að mæla með þessu svæði.
Hægt er að skoða myndir frá ferðinni hér.