Við Háskóla Íslands á Laugarvatni er kenndur klifuráfangi þar sem farið er í helstu grunnatriði klifurs. Í haust hafa nemendur verið duglegir að klifra og heimsótt helstu klifursvæðin á suðvesturhorninu, Valshamar, Stardal og Hvanngjá á Þingvöllum.
Hápunktur áfangans var svo helgarferð á Hnappavelli 17-19. september. Þar var klifrað frá föstudegi fram á nótt til sunnudags. Allir fundu eitthvað við sitt hæfi og klifraðar leiðir voru til dæmis Grámosinn glóir 5.4, Góð byrjun 5.5, Músastiginn 5.6, Páskaliljur 5.7, Þetta eru fífl Guðjón 5.8, Stefnið 5.9 og Can Can 5.10b.
Eitthvað var reynt við grjótglímu en þar sem fæstir höfðu komið á Hnappavelli áður vantaði tilfinnanlega leiðarvísi fyrir grjótglímu á Hnappavöllum. Þó var ein ný “grjótglímuleið” klifruð þess helgi, F-16.
Aðstaðan á Hnappavöllum er til fyrirmyndar og tóftin kom að góðum notum þegar kólna fór á kvöldin. Veðrið þess helgi var líka alveg til fyrirmyndar, logn og glampandi sól.