Tag Archives: new problems

298 klifurleiðir á Hnappavöllum

Klifurnördar

Í dag tókum við Jafet, Eyþór og Jonni gott session og settum inn allar klifurleiðir sem skráðar eru í Hnappavalla Klifurhandbókinni eftir Jón Viðar og Stefán Steinar. Allar klifurleiðir úr leiðarvísunum hans Sigga Tomma (Gerðuberg, Munkaþverá, Stardalur og Valshamar) hafa einnig verið skráðar.

Þegar klifursvæðin eru borin saman sést að Hnappavellir er lang stærsta klifursvæðið okkar þar sem eru núna skráðar 298 klifurleiðir. Það næst stærsta er Stardalur með 87 klifurleiðir og svo Jósepsdalur með 76 leiðir. Það á hins vegar eftir að skrá leiðir úr Vestrahorni þar sem eru um 200 klifurleiðir. Samtals eru núna 812 klifurleiðir skráðar á Klifur.is.

Með því að hafa allar klifurleiðirnar skráðar í tölvutæku formi getum við loks auðveldlega talið leiðirnar á Hnappavöllum en leiðirnar 298 skiptast svona:

  • Grjótglíma: 139
  • Sportklifur: 138
  • Dótaklifur: 21

Þetta er held ég stórt skref fyrir litla klifursamfélagið okkar á Íslandi. Þessar upplýsingar sem við höfum safnað saman í gegnum árin eru það sem gerir klifrið á Íslandi eins skemmtilegt og það er og nú hefur aðgengið að þessum upplýsingum aldrei verið betra. Með allar þessar klifurleiðir skráðar á sama stað er auðvelt að uppfæra stóru klifursvæðin og klifrarar geta farið og upplifað ný klifursvæði án þess að það þurfi að vera til prentaður leiðarvísir. Nú er bara að byrja að skipuleggja næsta sumar. Er ekki eitthvað klifursvæði sem þú átt eftir að skoða?

Ég get ekki sett inn þessa grein fyrr en ég hef þakkað leiðarvísasmiðunum fyrir að vera súper nettir á að leyfa okkur að nota allar upplýsingarnar sem þeir hafa sett svo mikla vinnu í að safna saman. Takk kærlega!

Skip to toolbar