Í sumar voru klifuráhugamenn frá Selfossi að skoða stóra steinhnullunga sem voru í námu þar skammt frá. Sú hugmynd kom upp að flytja steinana frá námunni í Selfoss og koma þeim þannig fyrir að gott væri að stunda grjótglímu í þeim. Nokkur alvara var fyrir að framkvæma þessa hugmynd og væri gaman að fá að heyra hvernig þetta fór.
Á Geldinganesinu, rétt hjá Grafarvoginum, er steinanáma sem hefur ekki verið unnið í í þó nokkurn tíma. Í henni eru steinar sem eitthvað hefur verið klifrað í en aðgengi, umhverfi og klifur er ekki upp á marga fiska og það hefur ekki verið mikið sótt. Spurningin er hvort sá möguleiki sé raunhæfur að flytja steinana í bæinn. Þá væri aðgengið að steinunum betra og einnig væri hægt að stjórna því að einhverju leiti hvernig steinarnir snúa þannig að þeir væru sem hentugastir fyrir klifur. Spurningin er bara hvort steinarnir séu hentugir, hvort það sé hentugur staður fyrir þá og hvort hægt sé að fá einhverja styrki hugsanlega frá Reykjavíkurborg til að framkvæma þetta.
Þetta er verðugt verkefni til að skoða og hvet ég ykkur klifuráhugamenn á Íslandi til að athuga þetta. Ekki veitir af meira klifri í bæinn.