Dótaklifur
Dótaklifur er mjög svipað og sportklifur fyrir utan það að klifrarinn kemur tryggingunum fyrir sjálfur. Tryggingunum oftast komið fyrir í sprungum en það er mismunandi hvaða tegund er notuð eftir því hvernig sprungan er í laginu. Til þess eru notaðir spennikambar, hnetur, hexur og annar svipaður búnaður.
Það er nauðsynlegt að stíga fyrstu skrefin í dótaklifri með vönum leiðbeinanda. Dótaklifur getur reynst afar hættulegt ef kunnátta klifrarans við að setja inn tryggingar og önnur línuvinna er ekki viðunnandi.
Búnaður
Til þess að geta stundað dótaklifur þarf hver klifrari að eiga: klifurskó, kalkpoka og belti. Sá búnaður sem er “sameiginlegur” er: klifurlína, læst karabína, tryggingartæki og ca. 8 tvistar (gott að hafa þá langa eða framlengjanlega). Einnig þarf að eiga tryggingar en það er mismunandi hvað mönnum finnst vera hæfilegur búnaður. Þetta er þess vegna aðeins tillaga að búnaði: Hnetusett (3-11), Spennukambar (0,75-2) og hnetulykill.
Klifursvæði
Á flestum línuklifursvæðum er að finna dótaklifurleiðir en einnig eru til klifursvæði þar sem aðeins er klifrað í dóti. Þau dótaklifursvæði sem eru mest sótt eru Gerðuberg og Stardalur (linkur á klettaklifursvæði). Klettarnir á þessum svæðum eru úr stuðlabergi sem hentar afar vel til að setja inn tryggingar.
Námskeið
Það eru ekki haldin nein sérhæfð námskeið í dótaklifri. Við bendum þeim sem hafa gífurlegan áhuga á að fara stunda dótaklifur að hafa samband við einhvern vanan klifrara og klifra með honum í línu um hríð til þess að læra réttu handtökin af honum.