Margt aðdáunarvert hefur gerst í klettaklifri hér á fróni en einnig voru unnin nokkur klettaklifurafrek fyrir utan landsteinanna. Farið var til El Chorro um jólin 2009 þar sem Jónas Grétar Sigurðsson, Andri Már Ómarsson, Heiðar Þór Jónsson og Eyþór Konráðsson klifruðu allir leiðina Eye of the Storm sem ber gráðuna 7c. Félagarnir Kristján Þór Björnsson og Hjalti Andrés héldu til Kjugekull í Svíþjóð og klifraði Kristján þar þrautina Lithium 7c+-8a. Í febrúar lögðu Kjartan Björn og Valdimar Björnssynir land undir fót og ílentust í Katalóníu á Spáni. Þar rauðpunktaði Valdimar 8b leiðirnar Photoshot í Margalef og Boui Prou í Siurana. Kjartan rauðpunktaði Anabolicu 8a í Siurana og Trio Ternura í Santa Linia. Auk þess klifraði hann leiðina El Ejaculator, Santa Linya í fyrstu atrennu. Kjartan Jónsson og Egill Örn Sigþórsson rauðpunktuðu Borinator í Ceuse, Fakklandi haustið 2010. Hún er þeirra fyrsta 8a leið. Haustið 2010 hélt Valdimar Björnsson til Danmerkur. Þar setti hann upp leiðir fyrir opið danskt grjótglímumót. Þarnæst hélt hann til Nurnberg, Þýskalandi og klifraði leiðina Plan B sem er 8b og leiðina Respect 8a+. Einnig fór hann Gamba 8a og fór í fyrstu atrennu leiðina The big easy 7c í Pfals.
Á Hnappavöllum sumarið 2010 opnaði Valdimar leiðina Þar sem tæpt er tæpast 5.12b. Einnig vígði hann grjótglímuþrautina Sugar for my honey sem hlaut gráðuna 7c og er staðsett í Þorgilsrétt austur og slíkt svo eina erfiðustu grjótglímuþraut á Íslandi, en henni hefur verið gefin gráðan 8a og nefnist hún Kamarprobbinn . Hún var farin í ofanvaði vegna grýttrar lendingar. Fleira markvert átti sér stað í Örfæfasveitinni en þar sótti Kjartan Björn Björnsson Slátrarann heim og hafði betur. Sigurður Tómas Þórisson fór leiðina Metrosexual 7c. Andri Már rauðpunktaði Tóftina og Frakkinn Adrien Boulon opnaði leiðina Addis Ababa 7c+ í Gimlukletti. Grjótglímuþrautum hefur fjölgað svo um munar á Hnappavöllum og eru þær nú skráðar nær 120 talsins. Hnappavallamaraþon var haldið í þriðja skipti sumarið 2010 og fór allt vel að lokum þó skiptst hafi á skin og skúrir. Mikil uppbygging var á Tóftinni og eiga hjónin Jón Viðar og Unnur veg og vanda að sæluhúsi fyrir klifrara.
Jafet Bjarkar Björnsson gaf út leiðarvísinn Jósepsdalur Boulder árið 2009 og Reykjanes Boulder árið 2010. Hann hefur ennfremur haldið úti vefsíðunni www.klifur.is með miklum sóma og á heiður skilinn.
Byrjað var að stunda grjótglímu í Vaðalfjöllum sumarið 2009 og hefur fjöldi grjótglímuþrauta vaxið mikið þar vestra sumarið 2010.
Ásrún Mjöll Stefánsdóttir